Golfklúbbur
Norðfjarðar
Það var hinn 1.maí 1965 að Gissur Ó. Elingsson þá póst-og símstjóri í Neskaupstað, kallaði saman tíu menn í þeim tilgangi að hefja undirbúning að stofnun golfklúbbs í bænum. En Gissur hafði kynnst golfíþróttinni í Vestmannaeyjum og var að því best er vitað einn af stofnendum Golfklúbbs Vestmannaeyja.Til fundarins voru komnir Gissur Ó Erlingsson, Sigfús Guðmundsson, Kristján Lundberg, Stefán Þorleifsson, Jón L Baldursson, Stefán Pálmason, Björn Björsson, Steinar Björnsson og Kristinn Jóhannsson. Á fundinum var kosin þriggja manna undirbúningsnefnd undir forystu Gissurar, í nefndinn voru einnig Sigfús Guðmundsson og Kristinn Jóhannsson. Hlutverk nefndarinnar var að undirbúa stofnun golfklúbbs í Norðfirði, sem fyrst. Að loknum fundi fór hópurinn í skoðunarferð um Norðfjarðarsveit, í leit að vallarsvæði.
​
Golfklúbbur Norðfjarðar var svo stofnaður viku síðar eða hinn 8.maí 1965. Stofnfélagar voru fimmtán og var Gissur Ó. Erlingsson kjörin fyrsti formaður klúbbsins. Klúbburinn var í upphafi nefndur Golfklúbbur Neskaupstaðar, skammstafað GN. Nafni klúbbsins var breytt í Golfklúbb Norðfjarðar á aðalfundi árið 1980. Lög klúbbsins voru smíðuð upp úr reglum Golfklúbbs Reykjavíkur sem var þá stærsti golfklúbbur landsins. Haustið 1965 gengur klúbburinn í ÚÍA og í framhaldi af því telst klúbburinn vera fullgildur aðili að Golfsambandi Íslands og ÍSÍ.
​
Strax á fyrstu dögum klúbbsins tókst að fá land undir golfvöll, að vísu var það einungis á leigu og það bara frá ári til árs. Golfklúbburinn samdi fljótlega til langs tíma við bændur á Skorrastað um leiguna og bæjarfélagið hefur eignast landið að hluta, þannig að framtíð klúbbsins á Grænanesbökkum er tryggð. Vallarsvæðið var á Grænanesbökkum gengt Grænanesi og var völlurinn í fyrstu nefndur Grænanesbakkavöllur, síðar var farið að kalla völlinn Grænanesvöll, enda var það orðin almenn málvenja hjá klúbbfélögum.
Húsnæðismál eru eilífðarmál í golfklúbbum, það þarf því ekki að undra að á fyrstu árum klúbbsins er farið að huga að þeim málum. Umræðan er þegar farin í gang í nóvember 1965. Stjórnin hefur þá þegar falast eftir geymsluskúr frá olíufélaginu BP. Það er síðan 1967 að hafist er handa við að koma upp litlu skýli sem flutt var utan úr bæ. Sennilega er það þessi geymsluskúr frá olíufélaginu. Plata var steypt undir hann þá um sumarið. Geymsluskúrinn var staðsettur við núverandi fyrsta teig, hann stóð í nokkur ár en fauk í óveðri einn veturinn. Þegar klúbburinn var endurreistur 1980 var húsið horfið, þá var notast við sendiferðabíl þegar mótahald var.
Það er síðan í júní 1985 sem Stefán Þorleifsson og Viðar Hannes Sveinsson fara á Reyðarfjörð og skoða vegavinnuskúr sem er til sölu. Stjórnin samþykkir í framhaldinu að bjóða í húsið. Vegagerðin tók ekki tilboði klúbbsins, en í annarri tilraun fékk klúbburinn húsið og var það sett niður á bakkann gengt Grænanesbænum, þar var stutt í rafmagn. Vegavinnuskúrinn þjónað klúbbnum síðan til vors 1991, þegar nýr kafli í húsnæðissögunni hófst.
​
Það er síðan í febrúar 1990 sem Stefán Þorleifsson segir frá samtali sínu við fulltrúa flugmálastjórnar, þar kom fram að klúbburinn geti fengið gamla flugskýlið ókeypis ef klúbburinn fjarlægi það. Flugskýli var reist rétt eftir 1960 og var teiknað og byggt af Sigurði Guðjónssyni byggingarmeistara. Það er í ágúst byrjun 1990 sem klúbburinn fær endanlegt vilyrði fyrir húsinu.Veturinn 1990 - 1991 er húsið síðan flutt á golfvöllinn og staðsett austast á vellinum við gamla vaðið að Grænanesi. Húsið er síðan lagfært og málað, pallur smíðaður norðan og vestan við húsið. Golfskálinn er síðan vígður formlega 9. júní 1991. Þessi golfskáli bætti aðstöðu klúbbsins verulega, hleypti nýju lífi í félagsstarfið og gerði alvöru mótahald mögulegt.
​
Eftir að fyrri golfskálinn hafði verið notaður 4 - 5 ár fóru félagsmenn að velta fyrir sér að færa golfskálann í norðvestur hornið á vellinum. Umferð var mikil í gegnum völlinn með tilheyrandi ryki, skálinn var þegar orðinn of lítill, stækkunarmöguleikar við hann þröngir og Hannes Þorsteinsson golfvallahönnuður hafði verið beðinn um að skipuleggja völlinn þannig að skálinn og æfingasvæði væru í norðvestur horninu. Til að byrja með var kannað hvort fýsilegt væri að flytja golfskála og stækka. Húsnæðismálin eru oft rædd, en á fundi í október 1997 tekur stjórnin ákvörðun um að biðja Ingþór Sveinsson húsasmið um að meta, hvort betra sé að byggja nýjan skála, eða flytja þann gamla og stækka.Stjórn klúbbsins ræðir í framhaldinu um niðurstöður Ingþórs. Það er síðan á stjórnarfundi 15.apríl 1998 sem stjórnin ákveður að stefnt skuli að því að byggja nýjan 108 fermetra golfskála. Stjórnarfundurinn var haldinn í nýja flugskýlinu á Norðfjarðarflugvelli. Ingþór Sveinsson var þar mættur til að gefa góð ráð. Ingþóri var falið að teikna húsið og ræða við fulltrúa frá Límtré h.f. Ingþóri er síðan falið að gera grunn skálans og reisa hann hugsanlega í framhaldinu. Skálabyggingin er síðan kynnt á almennum fundi 8.maí 1998. Þar var endanlega ákveðið að byggja nýjan skála og hefja verkið sem fyrst. Húsið yrði byggt samkvæmt tilllögum Ingþórs Sveinssonar sem sæi um að reísa skálann. Jón Grétar Guðgeirsson sæi um að grafa grunninn og Stefán Þorleifsson yrði allherjarreddari.
​
Um mitt sumar 1998, nánar til tekið í lok júlí skilar Ingþór Sveinsson húsinu fokheldu og flytur af landi brott. Árni Guðjónsson tekur nú við verkinu, enda mikil vinna eftir við innréttingar, einangrun og frágang. Árni stjórnaði síðan verkinu þar til verkinu lauk í byrjun maí 1999. Eiríkur Þór Magnússon hafði umsjón með rafmagni.Hjörvar Jensson var kjörinn formaður klúbbsins á aðalfundi 1999 og tekur hann að sér að klára húsbygginguna. Það er síðan 24.maí sem formleg víxla hússins fer fram að viðstöddu fjölmenni. Nýi golfskálinn bætti aðstöðu félagsmanna til mikilla muna. Húsið var með góðum sal með sjónvarpi, snyrtingum, eldhúsi, skrifstofuðastöðu með góðri tölvu aðstöðu og geymslum fyrir kerrur og golfpoka félagsmanna. Húsið hefur reynst einstaklega vel og um vorið 2009 var reistur vandaður sólpallur við húsið undir styrkri stjórn Árna Guðjónssonar.
Fyrstu teikningu að níu holu velli gerði Þorvaldur Ásgeirsson þá golfkennari, en fyrst var notast við sex holur, þar sem gerð stærri valar krafðist mikilla framkvæmda. Vellinum var oft breytt á árunum 1983 - 1993 og hann spilaðar á ýmsa vegu. Brautir voru lengdar, flatir færðar og brautum snúið við. Tvær brautir eru því sem næst eins og í upphafi, fyrsta brautin sem var upphaflega fyrsta brautin og sjöunda brautin. Þessar framkvæmdir voru hannaðar af starfsmönnum og öðrum félagsmönnum. Það var síðan í maí 1992 sem Hannes Þorsteinsson golfvallarhönnuður kom til Norðfjarðar og tók að sér að skipuleggja völlinn upp á nýtt.Grænanesvöllur er nú 9 holu golfvöllur eftir teikningu Hannesar Þorsteinssonar golfvallahönnuðar og þykir skemmtilegur og hefur verið í mjög góðri hirðu.
​
Mjög rólegt var yfir klúbbstarfinu eftir brottflutning Gissurar árið 1970, og var það mjög lítið fram undir 1980, þegar Stefán Þorleifsson var kosinn formaður klúbbsins. Öll árin var þó spilað golf en umhirða vallarins var mjög lítil. Það var svo á 9. áratugnum undir forystu Stefáns Þorleifssonar og margra ungra manna sem hafist var handa um þá uppbyggingu sem enn stendur. Mikið þrekvirki var unnið á árunum 1982 - 1993, starfsmenn og félagsmenn náðu að koma upp vel hirtum 9 holu velli. Stórir áfangar voru kláraðir á árunum 1998 og 1999, þegar tvær nýjar brautir voru teknar í notkun ásamt nýjum og glæsilegum golfskála.
​
Fyrsti launaði starfsmaður klúbbsins var Friðrik Jón Sigurðsson. Hann var ráðinn til að sinna framkvæmdum sumurin 1967 og 1968. Hann vann hluta af sumri við fyrstu umhirðu og framkvæmdir. Ólafur Sveinbjörnsson var síðan ráðinn sumarið 1982. Viðar Hannes Sveinsson starfaði hjá klúbbnum sumrin 1983 - 1993 og Helgi Hansson ásamt Viðari 1990 og 1991. Á þessum árum varð völlurinn að alvöru níu holu velli, þrátt fyrir fátæklegan tækjakost. En árið 1994 tók Jón Grétar Guðgeirsson við af Viðari og var starfsmaður og vallarstjóri á Grænanesvelli til ársins 2005 að Arnaldur Freyr Birgisson var ráðinn til starfa sem vallarstjóri og starfsmaður klúbbsins það sumar. Ásamt og með Jóni Grétari og Arnaldi hafa Guðgeir Jónsson, Daníel Geir Hjörvarsson og Björgúlfur Bóasson starfað hjá klúbbnum, Guðgeir í nokkur sumur en þeir hinir sitt sumarið hvor. Þá hefur Guðni Þór Steindórsson verið í vallarnefnd með Jóni Grétari og leyst hann af þegar þörf hefur veri á því.
​
Eins og fram kom áður varð Stefán Þorleifsson formaður klúbbsins 1980 og gegndi starfinu út starfsárið 1998. En á aðalfundi haustið 1998 tók Hjörvar O. Jensson við stjórnartaumunum af Stefáni og gegndi starfinu til aðalfundar 2007 en þá tók Viðar Hannes Sveinsson við og starfaði sem formaður í eitt ár. Óskar Sverrisson tók við af Viðari og starfaði sem formaður í tvö ár eða til aðalfundar í febrúar 2010, en þá tók Gunnar Ásgeir Karlsson við stjórnartaumunum.
Auk stjórnar er stór hópur fólks sem kemur með einum eða öðrum hætti að stjórn og rekstri klúbbsins og eru starfsnefndir mjög vel virkar og skila góðu verki